Uppeldi sem virkar – færni til framtíðar er í grunninn forvarnarverkefni sem hófst árið 2002 á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Tilgangurinn var að stuðla að æskilegum uppeldisskilyrðum fyrir öll börn og gera þau hæfari til að takast á við daglegt líf og áskoranir í nútíð og framtíð. Fyrir utan velferð barna var markmiðið að minnka líkur á þróun hegðunarvanda og áhættuhegðunar t.d. á unglingsárum.

Í þessu augnamiði var hannað námskeið fyrir foreldra með áherslu á að kenna þeim jákvæðar, hagnýtar og árangursríkar leiðir til að gera uppeldið skipulagðara, auðveldara og ánægjulegra. Í framhaldinu var sett saman sérstakt námskeið fyrir fagfólk til að verða leiðbeinendur á foreldranámskeiðum og voru fyrstu námskeiðin haldin árið 2004. Síðan hefur námskeiðsefnið verið aðlagað fyrir fleiri hópa og námskeið orðið til fyrir starfsfólk leikskóla, verðandi dagforeldra og pólsku- og enskumælandi foreldra. Innihald námskeiðanna hefur reglulega verið endurskoðað og uppfært í samræmi við þróun þekkingar og samfélagslegar breytingar, síðast í nóvember 2022. Höfundur námskeiða er Gyða Haraldsdóttir doktor í þroskasálfræði. Umsjón námskeiðanna er hjá Fræðslufélaginu undir stjórn höfundar og Lone Jensen uppeldisráðgjafa.